21. desember fyrir hálfri öld hófst eitt allra merkasta og magnaðasta ferðalag mannkynssögunnar, fyrsta ferð mannkyns til tunglsins!
Síðsumars árið 1968 var Apollo verkefni Bandaríkjamanna verulega á eftir áætlun vegna nokkurra þátta. Það sem olli seinkuninni var aðallega endurhönnun á geimhylkisstjórnklefanum (CM module) sem hafði á prufustigi kostað þrjá geimfara lífið í janúar 1967, svokallaðir “unknowns” og “unknown unknowns” þættir sem og prímadonnan sjálf, tunglferjan, sem var langt í frá tilbúin fyrir tilraunaflug. Því leit út fyrir að Sovétríkin myndu ná til tunglsins á undan Bandaríkjunum, en búist var við að þau myndu senda mannað tunglfar áður en árinu 1968 lyki. Tekin var ákvörðun um að steypa nokkrum Apollo tilraunaskotum saman í eitt með því að senda Apollo-8 beint til tunglsins og þar með prufukeyra ekki bara Satúrnus-V eldflaugina og nýja endurhannaða Apollo geimhylkisstjórnklefann í slíkri langferð heldur einnig tölvur, siglingatæki og fjarskipti, mannlega þáttinn og öll teymin sem voru bæði í skot- og aðalstjórnstöð NASA.

Apollo 8 geimfararnir. F.v: Bill Anders, Frank Borman og Jim Lovell.
Um miðjan september 1968 náðu Sovétríkin að skjóta á loft geimfari sem fór til tunglsins og til baka til jarðarinnar með skjaldbökur, mjölmaðka og manngínu innanborðs. Tveimur mánuðum síðar endurtóku Sovétríkin slíkt geimskot. Síðar í sama mánuði (nóvember) bárust NASA fréttir frá bandarísku leyniþjónustunni um að Sovétmenn væru að koma sovésku tungleldflauginni, sem gat borið tvo geimfara, fyrir á skotpalli. N-1 tungleldflaug Sovétmanna var ekki skotið á loft að þessu sinni og Bandaríkjamenn urðu fyrri til að að ræsa Satúrnus-V eldflaugi sína með Frank F. Borman II (yfirflugmann), James A. Lovell Jr. (flugmann Apollo geimfarsins) og William A. Anders (tunglferjuflugmann) innanborðs. Sá síðastnefndi hafði upphaflega það hlutverk að prufukeyra tunglferjuna en þar sem það var engin tunglferja um borð að þessu sinni var hann þess í stað látinn munda myndavélar til að taka nærmyndir úr 125km sporbaugshæð af áætluðum lendingarstöðum Apollo áætlunarinnar.
- Apollo 8 var í fyrsta sinn sem mönnum var komið fyrir ofan á Satúrnus-V eldflaug
- Apollo 8 var fyrsta mannaða geimferðin til að fara burt frá jörðinni
- Apollo 8 var fyrsta mannaða geimferðin sem fór til annars hnattar
- Apollo 8 var fyrsta mannaða geimfarið til að fara á sporbaug um annan hnött en jörðina
- Apollo 8 var í fyrsta sinn sem menn sáu bakhlið tunglsins með berum augum, og það í návígi
- Apollo 8 var fyrsta mannaða geimfarið til að komast aftur til jarðarinnar frá öðrum hnetti
Fyrir utan hvað Apollo-8 er merkileg geimferð í sjálfri sér þá er ágætt að hafa nokkur önnur atriði í huga:
- Tunglið er í um 385.000 km fjarlægð, en áður var lengsta geimferð sem farin hafði verið frá jörðu 1.368 km hæð í Gemini-11 verkefninu.
- Apollo-8 var einstaklega vel heppnuð geimferð, en vert er að hafa í huga að Apollo tækjastæðurnar (Service Modules), með eldflaugahreyflinum fyrir aftan stjórnklefishylki Apollo geimfaranna, höfðu allar verið uppfærðar. Í einni þeirra hafði gleymst að skipta út vír í súrefnistanki sem að endingu brann í sundur og kostaði Apollo-13 geimferðina ekki bara tungllendingu heldur næstum því líf allrar áhafnarinnar. Ef Apollo-8 hefði fengið þá tækjastæðu þá var engin tunglferja til að bjarga þeim eftir að súrefnistankurinn sprakk.
William „Bill“ Anders tók Jarðarupprisu-myndina frægu þar sem jörðin rís yfir sjóndeildarhring tunglsins og sögð er hafa ollið aukinni umhverfisvitund jarðarbúa.

Jarðarupprás. Bill Anders, einn af Apollo-8 geimförunum tók myndina á braut um tunglið.
- Jim Lovell með útréttri hönd og uppréttan þumal náði að fela jörðina á bakvið þumalinn og hefur oft lýst í viðtölum hvernig sú upplifun hafi verið að átta sig á því að á þeirri stundu var á bakvið þumalputtann allt það mannkyn og öll sú saga sem við þekkjum.
- Jim Lovell tók eftir sérkennilega þríhyrningslaga fjalli á austanverðum miðbaug tunglsins (séð frá jörðu) sem yrði fyrirtaks kennileiti fyrir tunglferjuflugmenn að taka mið af þegar komið væri inn til lendingar í kringum miðbaug, og nefndi það Marilyn eftir eiginkonu sinni. Þrátt fyrir að tunglferjuflugmenn notuðu Marilyn fjallið eftir það sem ákveðið kennileiti í aðdraganda lendinga tók það Alþjóðasamband stjarnfræðinga (International Astronomical Union, IAU) 49 ár að samþykkja þá nafngift formlega.
- Þegar ákveðið hafði verið að Apollo-8 yrði fyrsta tunglferðin, var ljóst að varaáhöfn þeirra yrði sú fyrsta til að gera tilraun til tungllendingar. Stjórnendur NASA vildu halda Apollo-8 áhöfninni sem þeirri áhöfn sem myndi reyna fyrstu tungllendinguna og Dick Slayton kom að máli við Borman sem sló það strax út af borðinu með því að segja að ef þeir kæmust lifandi til baka frá tunglinu, yrði þetta síðasta geimferð hans.
Að auki má taka fram að einn geimfari Apollo-8, William „Bill“ er með töluverða tengingu við Ísland en hann var staðsettur á Keflavíkurstöðinni í þó nokkurn tíma, og flýgur enn í dag P-51D Mustangnum sínum merktum Iceland Air Defence Force.

Bill Anders við Mustanginn sinn.
————————————————————————————–
Texti – Sólver Sólversson (meðstjórnandi í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness)
Nýlegar athugasemdir