Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness var stofnað 1976 í kringum stærsta stjörnusjónauka landsins í Valhúsaskóla. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er elsta og fjölmennasta félag áhugamanna um stjörnuskoðun og stjörnufræði hér á landi.

Í mars 2015 voru félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness rúmlega 340 talsins. Aðsetur félagsins er í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Uppi á þaki skólans er hvolfþak sem um árabil hýsti aðalsjónauka félagsins, JMI NGT-18, 18 tommu (46 cm) breiðan spegilsjónauka. Þetta er stærsti stjörnusjónauki landsins en hann var nýverið fluttur í nýja og glæsilega aðstöðu við Hótel Rangá og hafa félagsmenn aðgang að honum þar.

Félagið á nokkra aðra stjörnusjónauka. Þar má nefna 10 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Meade og 14 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Celestron sem var fyrsti sjónauki félagsins. Einnig á félagið 10 tommu Skywatcher Dobsonsjónauka og tvo Coronado sólarsjónauka.

Stofnfundur Stjörnuskoðunarfélagsins var þann 11. mars árið 1976 og voru stofnfélagar tuttugu talsins. Fyrsti formaður félagsins var Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur. Núverandi stjórn Stjörnuskoðunarfélagsins skipa

  • Sævar Helgi Bragason, formaður
  • Gísli Már Árnason, ritari
  • Óskar Torfi Viggósson, gjaldkeri
  • Kristján Heiðberg, meðstjórnandi
  • Hermann Hafsteinsson, meðstjórnandi

Stjörnuskoðunarfélagið er opið öllum áhugamönnum um stjörnuskoðun og stjörnufræði. Félagsgjaldið er 3.000,- kr. á ári en börn og unglingar yngri en 16 ára greiða 1.500,- kr. Á hverju ári stendur félagið fyrir margvíslegum spennandi uppákomum og ber þar helst að nefna námskeið í stjörnuskoðun, útgáfu fréttabréfa, sólskoðun og stjörnuskoðun fyrir almenning auk ýmiss annars.

Árið 2010 átti sá ánægjulegi viðburður sér stað að annað stjörnuskoðunarfélag var stofnað á Akureyri en það nefnist Stjörnu-Oddafélagið. Helsti hvatinn að stofnun Stjörnu-Oddafélagsins var vígsla nýs stjörnusjónauka á þaki raungreinahúss Menntaskólans á Akureyri. Á vordögum 2012 var annað stjörnuskoðunarfélag stofnað í Vestmannaeyjum sem nefnist Stjörnufræðifélag Vestmannaeyja og haustið 2012 stofnuðu nokkrir nemendur Stjörnuskoðunarfélag Bifrastar við Háskólann á Bifröst.

Skráning í félagið.

IMG_1145

DSC_7116

namskeid2