
Síðastliðið sunnudagskvöld var haldinn síðasti félagsfundurinn á þessum vetri í Valhúsaskóla. Fundinn sótti ellefu manns og var farið yfir það helsta sem stóð upp úr í vetur ásamt því sem framundan er. Félagið á 40 ára afmæli þann 11. mars á næsta ári og ætlum við svo sannarlega að gera eithvað í tilefni þess.
Í febrúar héldum við hið árlega byrjendanámskeið og í mars fengum við til okkar Babak Tafreshi sem er einn virtasti næturljósmyndari í heiminum. Hélt hann fyrir okkur tveggja daga námskeið í næturljósmyndun.
20. mars var sólmyrkvi eins og fór væntanlega ekki framhjá neinum. Félagið dreifði rúmlega 50.000 sólmyrkvagleraugum til grunnskólabarna á landinu en einnig fengu allir leikskólar landsins gleraugu í sínar hendur gefins frá félaginu. Sólmyrkvahátíð var haldin fyrir framan Háskóla Íslands en þangað lögðu um 2.000 manns leið sína en hátíðin endaði á fyrirlestrum í hátíðarsal HÍ.
Í tilefni 40 ára afmæli félagsins hafa komið ýmsar hugmyndir um hvernig sé hægt að fagna afmæli félagsins. Þær hugmyndir sem hafa kviknað er að fá til okkar einhvern frægann fyrirlesara til þess að halda erindi fyrir okkur sem vonandi væri hægt að halda í Háskólabíói fyrir fullum sal.
Félagið mun gefa út veglegt afmælisrit uppfullt af áhugaverðum greinum.
Ekki er hægt að halda upp á svo stórt afmæli án þess að fái einhverja einhverja pakka en ein hugmyndin er að efla tækjabúnað og kaupa nýjann sjónauka. Þeir sjónaukar sem stjórnarmenn hafa verið að velta fyrir sér er einhver hágæða linsusjónauki frá framleiðendum á borð við TEC, Astro- Physics eða Takahashi. Sjónauka af þessum gæðaflokki væri ekki hægt að stilla upp nema á hágæða sjónaukastæði á borð við Paramount eða öðru af sambærilegum gæðum. Einnig hefur komið upp önnur hugmynd um að kaupa stórann spegilsjónauka sem yrði langstærsti sjónauki á landinu eða 25 tommur (62,5cm) í þvermál. Þetta eru þó aðeins hugmyndir um hvað sé hægt að gera í tilefni afmælisins og væri gaman að heyra frá félagsmönnum hvað þeir vilja að gert yrði á árinu.
Þó svo að hið eiginlega stjörnuskoðunartímabil sé á enda munum við standa fyrir nokkrum viðburðum í sumar þar sem við munum skoða nálægustu stjörnuna við jörðina, sólina. 17. júní munum við að venju vera með sólskoðun við austurvöll og svo aftur í ágúst þegar Menningarnótt er haldin.