Á þaki Valhúsaskóla er hvolfþak sem um árabil hýsti aðalstjörnusjónauka Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Hann er Newtonsspegilssjónauki frá fyrirtækinu JMI og er spegill hans 46 cm (18 tommur) í þermál. Þetta er stærstu stjörnusjónauki landsins. Sjónaukinn hefur nú verið fluttur í nýja og glæsilega aðstöðu við Hótel Rangá. Þangað eru félagsmenn ávallt velkomnir.

Félagið á einnig fjóra aðra stjörnusjónauka: 10 tommu (25 cm) Dobson spegilsjónauka frá SkyWatcher, 10 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Meade, 12 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Meade og 14 tommu (35 cm) Schimdt-Cassegrain sjónauka frá Celestron, en það var jafnframt fyrsti sjónauki félagsins.

JMI NGT-18

NGT-18 er 18 tommu Newtonsspegilssjónauki frá bandaríska sjónaukaframleiðandanum Jim’s Mobile Incorporated (JMI). Þetta er stærsti og fullkomnasti stjörnusjónauki landsins en bræðurnir og velunnarar félagsins, þeir Ágúst og Sveinn Valfells, gáfu Stjörnuskoðunarfélaginu gripinn. Með þessari höfðinglegu gjöf vildu þeir Ágúst og Sveinn efla áhuga almennings á stjarnvísindum og stjörnuskoðun. Á sama tíma vildu þeir bræður minnast systur sinnar dr. Sigríði Valfells málfræðingi, sem lést haustið 1998, sextug að aldri.

Sigríður Valfells var doktor í málvísindum frá Harvardháskóla og kenndi meðal annars við Washingtonháskóla í Seattle og við Columbiaháskólann í New York.

Sjónaukinn var keyptur í október árið 1998 en var ekki afhentur félaginu formlega fyrr en fjórum árum síðar eða föstudaginn 22. nóvember, 2002. Afhendingin dróst nokkuð þar sem gera þurfti breytingar á turninum í Valhúsaskóla vegna stærðar hans.

Sjónaukinn hvílir á rafdrifnu pólstilltu stæði svo vel er hægt að mynda með sjónaukanum sé hann rétt stilltur. Vegna þess hve ljósop sjónaukans er stórt er hann frábær í alla sjónskoðun, hvort sem verið er að skoða reikistjörnurnar, daufar stjörnuþokur, þétt tvístirni, tignarlegar kúluþyrpingar eða fjarlægar vetrarbrautir.

Þrátt fyrir ótvíræða kosti þessa frábæra sjónauka var hann heldur illa nýttur staðsetningar sinnar vegna. Ljósmengun frá höfuðborginni hefur vaxið umtalsvert á síðustu árum og framkvæmdir við Valhúsaskóla hafa gert það að verkum að staðurinn er svo til ónýtur til stjörnuskoðunar. Þess vegna var ákveðið að flytja sjónaukann á Hótel Rangá í nóvember 2014, þar sem aðstæður eru framúrskarandi góðar.

Aðrar upplýsingar:

Tegund: Newtonsspegilssjónauki
Ljósop: 18 tommu (45,72 cm)
Brennivídd: 2000 mm
Brennihlutfall: f/4,5
Birtumörk: 16
Lengd: 203 cm
Breidd: 91 cm
Sjónaukinn vegur: 100 kg

14 tommu Schmidt-Cassegrain frá Celestron

Fyrsti stjörnusjónaukinn sem Stjörnuskoðunarfélagið eignaðist var 14 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauki frá bandaríska sjónaukaframleiðandanum Celestron. Sjónaukinn var keyptur og afhentur Valhúsaskóla í mars 1975, fullu ári áður en Stjörnuskoðunarfélagið var stofnað, en sá sem lagði fram fé til kaupa á sjónaukanum var Sigurður Kr. Árnason, húsasmíðameistari og fyrsti ritari félagsins.

C14 var á þessum tíma (og er enn) aðalsjónaukinn sem Celestron framleiðir og var hann um árabil langstærsti stjörnusjónauki landsins. Sjónaukinn gagnaðist félagsmönnum mjög vel í tvo áratugi eða allt þar til Stjörnuskoðunarfélagið festi kaup á tíu tommu sjónauka árið 1995. Á stofnárinu 1976 sást bjart nýstirni í stjörnumerkinu Litlaref og varð það eitt fyrsta verkefni félagsmanna að fylgjast með og skrá breytingar á birtustigi þeirrar stjörnu með hjálp nýja sjónaukans.

Sjónaukinn er appelsínugulur á litinn og situr á rafdrifnu gaffalsstæði en eingöngu er hægt að hreyfa hann handvirkt (m.ö.o. ekki tölvustýrður). Með sjónaukanum fylgdi 8×50 leitarsjónauki, tveggja tommu hornspegill og augngler.

Sjónaukinn hefur látið talsvert á sjá eftir nálega 30 ára notkun og er því miður ekki nothæfur í dag. Stjórn Stjörnuskoðunarfélagsins hyggst þó koma sjónaukanum í fyrra horf þannig að hann verði nothæfur á ný. Áætlað er að endurhúða spegla sjónaukans og leiðréttingarplötuna, lagfæra túbuna og koma honum fyrir á vönduðu þýsku-pólstilltu sjónaukastæði. Þannig mun C14 öðlast nýtt líf hjá félaginu og verða um leið næst stærsti stjörnusjónauki landsins, kjörinn í ljósmyndun og hefðbundna sjónskoðun.

Aðrar upplýsingar:

Tegund: Schmidt-Cassegrain
Ljósop: 14 tommur (35,6 cm)
Brennivídd: 3910mm
Brennihlutfall: f/11
Birtumörk: 15,3

12 tommu Schmidt-Cassegrain frá Meade

Árið 2012 var félaginu gefinn fyrsta flokks 12 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauki frá Meade. Sjónaukinn er rafdrifinn og tölvustýrður og var settur upp í Valhúsaskóla í stað 18 tommu JMI sjónaukans.

Tegund: Schmidt-Cassegrain
Ljósop: 12 tommur (30 cm)
Brennivídd: 3048 mm
Brennihlutfall: f/10

10 tommu Schmidt-Cassegrain frá Meade

Árið 1995 bauðst Stjörnuskoðunarfélaginu að kaupa 10 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Meade. Sjónaukinn var þá fimm ára gamall en í óaðfinnanlegu ástandi og verðið á honum hagstætt. Þáverandi stjórn félagsins mæltist til þess að sjónaukinn skyldi keyptur enda 14 tommu sjónaukinn orðinn gamall og þarfnaðist rækilegs viðhalds. Félagsmenn samþykktu þetta og var sjónaukinn keyptur.

Helsti munurinn á 10 tommu sjónaukanum og 14 tommunni, fyrir utan stærð ljósopsins, var fólginn í brennihlutfalli sjónaukann. Hefðbundnir Schmidt-Cassegrain sjónaukar hafa brennihlutfallið f/10 sem þýðir í grundvallaratriðum það að sjónsviðið er fremur þröngt og lengri lýsingartíma þarf í ljósmyndun. Fjórtán tommu sjónaukinn hafði brennihlutfallið f/11 en nýja tíu tomman f/6,3. Það þýddi að sjónsviðið var meira en helmingi víðara, myndir næstum þrefalt bjartari og lýsingartími fyrir ljósmyndun að minnsta kosti 60% skemmri en fæst með f/10 eða f/11 sjónaukum.

Sjónaukinn var líkt og C14 á rafdrifnu gaffalsstæði en hafði þann kost umfram 14 tommuna að vera tölvustýrður. Í kringum 1990 var þessi sjónauki flaggskip Meade og til í tveimur stærðum, átta og tólf tommum. Með sjónaukanum fylgdi 9×60 leitarsjónauki, 26mm augngler sem gaf 62x stækkun, taska og þrífótur.

Sjónaukanum var skipt út árið 2002 þegar JMI NGT-18 sjónaukinn var gefinn félaginu og tekinn í notkun. Árið 2006 tók stjórn félagsins undir forystu Grétars Arnar Ómarsson, ritara, sjónaukann í gegn og gerði nothæfan að nýju. Sjónaukinn er nú í mjög góðu ásigkomulagi og geta félagsmenn fengið hann að láni hvenær sem er.

Aðrar upplýsingar:

Tegund: Schmidt-Cassegrain
Ljósop: 10 tommur (25 cm)
Brennivídd: 1600mm
Brennihlutfall: f/6,3
Birtumörk: 14,5

10 tommu Dobson spegilsjónauki frá SkyWatcher

Árið 2010 keypti félagið 10 tommu SkyWatcher Skyliner spegilsjónauka af Dobsongerð. Vegna þess hve einfaldur sjónaukinn er í allri notkun er þetta sá sjónauki sem mest er notaður.

Tegund: Dobson spegilsjónauki
Ljósop: 10 tommur (25 cm)
Brennivídd: 1200mm
Brennihlutfall: f/4,7