1. gr.

Nafn félagsins er Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness. Heimili þess og varnarþing er Valhúsaskóli á Seltjarnarnesi. Félagið er opið öllum sem áhuga hafa og stjórnin veitir aðild, sbr. 7. gr.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að efla áhuga á stjörnuskoðun og stjörnufræði, stuðla að kynnum áhugamanna um þessi efni og veita aðstöðu til stjörnuskoðunar.

3. gr.

Félagið rekur og annast viðhald á aðstöðu til stjörnuskoðunar. Það heldur úti vefsíðu, spjallborði og myndasafni á vef og sér um reglulega útgáfu fréttabréfs.

4. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum, formanni, ritara, gjaldkera og tveimur meðstjórnendum sem kosnir eru á aðalfundi til eins árs í senn og er kosið í hvert embætti sérstaklega.

5. gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Skal hann haldinn eigi síðar en 1. mars ár hvert og til hans boðað með minnst viku fyrirvara. Tillögur um breytingar á starfsreglum þurfa að berast stjórn nægilega snemma til að þær geti fylgt fundarboði. Fundurinn telst gildur án tillits til fundarsóknar hafi réttilega verið til hans boðað. Fastir liðir aðalfundar skulu vera:
a. Kjör fundarstjóra og fundarritara
b. Skýrsla stjórnar um liðið starfsár
c. Ársreikningur borinn upp til samþykktar
d. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár
e. Skýrslur starfsnefnda félagsins
f. Kjör stjórnar (formanns, ritara og gjaldkera)
g. Skipan skoðunarmanns reikninga
h. Skipan í starfsnefndir
i. Breytingar á starfsreglum
j. Önnur mál
Félagsfundir skulu haldnir því sem næst mánaðarlega frá september til maí. Stjórn boðar til félagsfunda með minnst viku fyrirvara.

6. gr.

Starfsár félagsins skal vera milli aðalfunda en reikningsár skal miðast við almanaksárið.

7. gr.

Stjórn félagsins veitir einstaklingi aðild að félaginu og greiðir hann árgjald næst þegar greiðsla árgjalds er innheimt. Greiði félagi ekki árgjald þrjú ár í röð skal hann felldur úr félagaskrá. Félagar innan 16 ára aldurs greiða hálft árgjald. Stjórnin getur vikið einstaklingum úr félaginu án fyrirvara ef ástæða þykir til, en skylt er að bera þá ákvörðun undir næsta aðalfund.

Samþykkt á aðalfundi 17. febrúar 2008.
Lögum breytt í starfsreglur á aðalfundi 18. janúar 2009. 4. grein var breytt á aðalfundi 19. febrúar 2012.